Herrakvöld Lionsklúbbs Mosfellsbæjar 2025
Árlegt Herrakvöld Lionsklúbbs Mosfellsbæjar fór fram föstudaginn 7. febrúar s.l. í Hlégarði, á 60 ára afmælisári klúbbsins.
Jón Bjarni Þorsteinsson, formaður klúbbsins, setti hátíðina og veitti Jógvan Hansen Tappaorðuna, sem er forláta „kristalls“tappi í haganlega gerðri keðju. Sú hefð hefur verið við líði um langt árabil að hengja orðuna um háls veislustjóra herrakvöldsins hverju sinni, samhliða hlýtur veislustjórinn hina eftirsóttu heiðursnafnbót ‘YfirTAPPI’ í eina kvöldstund.

Boðið var uppá stórglæsilegt sjávarréttahlaðborð, frá Vigni og hans fólki hjá Veislugarði.

Magnús Sigsteinsson flutti skemmtilegt ágrip úr sögu klúbbsins, frá ýmsum fjáröflunum og verkefnum í gegnum tíðina.

Málverkauppboðið var að sjálfsögðu á sínum stað. Í ár voru boðin upp 9 málverk eftir 6 listamenn, þau Hrafnhildi Ingu, Ninný, Sossu, Örvar Árdal, Siggu Ranný og Tolla, og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir þeirra rausnarlega framlag.
Uppboðinu stýrðu af fagmennsku, þeir Jógvan Hansen ‘YfirTAPPI’ og Hilmar Gunnarsson(Mosfellingur) sem einnig er núorðið þekktur sem Hilmar í Hlégarði.
Þær Bryndís, Sonja og Ósk (Lionsklúbburinn Úa) sáu til þess að enginn færi í salinn ógreiddur(þ.e.a.s. án aðgöngumiða).
Sala happdrættismiða var að þessu sinni í höndum stúlkna úr meistaraflokki Aftureldingar í knattspyrnu, en þær Hildur Karítas, Harpa Karen, Sigrún Eva og Saga Líf seldu miða eins og enginn væri morgundagurinn og lætur nærri að seldur fjöldi happdrættismiða hafi verið tífaldur fjöldi gesta á herrakvöldinu.

Við viljum þakka öllum þeim sem að framan eru talin, ásamt starfsfólki Hlégarðs, fyrir þeirra hjálp við að gera enn eitt herrakvöldið okkar að veruleika.
Einnig færum við sérstakar þakkir til gesta okkar á herrakvöldinu og þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem gáfu vinninga fyrir kvöldið.

Síðast en ekki síst viljum við þakka félögum okkar í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar fyrir þeirra vinnu við undirbúning og framkvæmd herrakvöldsins.
Því það er, jú, samstarf klúbbfélaganna sem er lykillinn að því að ná að halda þessari stærstu og mikilvægustu fjáröflun klúbbsins úti, ár eftir ár.
En fjáröflunin á herrakvöldinu er hryggjarstykkið í okkar starfi, sem gerir okkur mögulegt að halda áfram að leggja góðum málum lið.

Herrakvöldsnefndin