Verið velkomin á nýja vefsíðu Lionsklúbbs Mosfellsbæjar! Síðan er enn í vinnslu og enn verið að þróa viðmót og leiðakerfi síðunnar.
Við þökkum biðlundina og hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur hér
Verkefnin sem Lionsklúbbur Mosfellsbæjar hefur lagt lið í 60 ára sögu klúbbsins, eru æðimörg og fjölbreytt.
Á myndinni hér til hliðar má sjá þegar þáverandi formenn Lkl. Mosfellsbæjar og Lkl. Úu afhentu forstöðumanni Reykjadals þessa hjólastólarólu, árið 2017. Rólan hefur komið sér vel og veitt mörgum gleði sem hafa dvalist í Reykjadal.
Eitt stærsta verkefni sem nokkur klúbbur hér á landi, og þó víðar væri leitað, hefur ráðist í og lokið við, var þegar Lionsklúbbur Mosfellsbæjar réðist í byggingu Dvalarheimilis aldraðra í Mosfellsbæ, fyrsta áfanga. Peningasöfnun klúbbsins til verkefnisins hófst upp úr 1970 og fyrsta skóflustungan var tekin 26. nóvember 1976. Verkinu tókst að ljúka farsællega og þann 12. júlí 1980 var húsið afhent Mosfellsbæ fullbúið.
Árið eftir unnu klúbbfélagar svo við standsetningu lóðarinnar umhverfis húsið.
Af öðrum verkefnum í gegnum tíðina má m.a. nefna verðlaunagripi vegna sundmóts á 17. júní í mörg ár, styrki til flestra deilda Ungmennafélagsins Aftureldingar, stuðning við Skálatúnsheimilið, Björgunarsveitina Kyndil, Skólalúðrasveit Mosfellsbæjar, hreinsun og fegrun umhverfisins í Mosfellsbæ, trjárækt, sölu Rauðrar fjaðrar, vímuvarnaverkefni, Lions Quest, þorrablót aldraðra og framlög í alþjóðahjálparsjóð Lionshreyfingarinnar(LCIF).
Ekki má heldur gleyma Endurhæfingarstofnuninni að Reykjalundi sem ávallt hefur skipað sérstakan sess í hugum klúbbfélaga.
Of langt mál væri að telja hér upp öll þau verkefni sem klúbburinn hefur sinnt gegnum árin og látum við hér staðar numið.
En með tíð og tíma vonumst við þó til að á þessari vefsíðu takist okkur að byggja upp gott stafrænt safn um sögu klúbbsins.