UM OKKUR

Við leggjum lið

image4

Líklega stærsta verkefni sem nokkur klúbbur hér á landi, þó víðar væri leitað, hefur ráðist í og lokið er bygging Dvalarheimilis aldraðra í Mosfellsbæ, fyrsta   áfanga.  Peningasöfnun klúbbsins til verkefnisins hófst upp úr 1970 og fyrsta skóflustungan var tekin 26. nóvember 1976.   Verkinu tókst að ljúka farsællega og þann 12. júlí 1980 var húsið afhent Mosfellsbæ fullbúið.   Árið eftir unnu klúbbfélagar svo við   standsetningu lóðarinnar umhverfis húsið.


Af öðrum verkefnum má nefna verðlaunagripi vegna sundmóts 17. júní í mörg ár, styrki til vel flestra deilda Ungmennafélagsins Aftureldingar, Skálatúnsheimilið, Björgunarsveitina Kyndil, Skólalúðrasveit Mosfellsbæjar, hreinsun og fegrun umhverfisins í Mosfellsbæ, trjárækt, sölu Rauðrar fjaðrar, vímuvarnir, Lions Quest, þorrablót aldraðra og alþjóðahjálparsjóð Lionshreyfingarinnar.  Ekki má heldur gleyma Endurhæfingarstofnuninni að Reykjalundi sem ávallt hefur skipað sérstakan sess í hugum klúbbfélaga. Of langt mál væri að telja upp öll þau verkefni sem klúbburinn hefur sinnt gegnum árin og látum við hér staðar numið.

Félagsstarfið

image5

Það er fleira en fjáraflanir og styrkveitingar sem fylgir því að vera félagi í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar. Samveran á klúbbfundunum er félögunum mikilvæg og fundirnir oftast léttir og skemmtilegir. 


Til viðbótar við félagsfundi eru haldin nokkur makakvöld á hverju starfsári, fjölskyldu jólahlaðborð, morgunverðarhlaðborð á sumardaginn fyrsta, farið út í bláinn, farið í útreiðatúr á vorin og í haustferðir.  Um miðjan ágúst er farið í útilegu.  Fastur liður útilegunnar er golfmótið "Jóel Exclusive".  Í einni slíkri útilegu 2007 var tekin upp sú  nýlunda að eiginkonur klúbbfélaganna halda sitt eigið golfmót.  Þótti það takast svo vel að það er komið til að vera.