Verið velkomin á nýja vefsíðu Lionsklúbbs Mosfellsbæjar!  Síðan er enn í vinnslu og enn verið að þróa viðmót og leiðakerfi síðunnar.
Við þökkum biðlundina og hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur hér

Útilega í Skógarnesi við Apavatn: samvera, söngur, grill og gleði

Við í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar kvöddum sumarið á hefðbundinn hátt með vel heppnaðri útilegu í Skógarnesi við Apavatn.  Þátttaka var mjög góð; um fjörutíu manns og þrír hundar tóku þátt í gleðinni.  Þátttaka vinkvenna okkar í dótturklúbbnum, Lionsklúbbnum Úu, í útilegunni er ómissandi og má alveg efast um að tekist hefði að halda svo vel í þessa hefð ef þær væru ekki að taka þátt í þessu með okkur, en útilegan er fyrir löngu orðin rótgróinn hluti af starfi klúbbsins okkar og er mikilvægur þáttur í að efla félagsandann.  Einnig var þátttaka maka og afkomenda klúbbfélaga með meira móti í ár.

Klúbbfundur i útilegu 2025
Klúbbfundur í Skógarnesi við Apavatn 2025

„Formleg“ dagskrá á laugardeginum var hefðbundin: Fyrsti klúbbfundur starfsársins var settur kl. 11, þar sem formaður klúbbsins fór yfir dagskrá vetrarins. Á slaginu kl. 12 var opnaður bjór eins og hefð er fyrir. Þá tók við undirbúningur fyrir Golfmótið-golf fyrir alla, en þar er engin forgjöf og valdir kaflar úr reglubókinni voru skyldir eftir inni í tjaldi. Fæstir leikmenn komu til baka með þær (Golf)kúlur sem þeir hófu leik með en einnig voru dæmi um að leikmenn týndu öllum sínum (Golf)kúlum í leiknum en enduðu þrátt fyrir það með fleiri en þeir fóru af stað með.

Næst voru grillaðar samlokur, að hætti „Gauja“, sem voru gerð góð skil að leik loknum.

Loks var svo komið að mikilvægasta, eða í það minnsta vandasamasta atriði útilegunnar, sem var það að grilla lambalæri að hætti Kidda fyrir kvöldið, en félagi okkar Björn Heimir hafði yfirumsjón með verkinu að þessu sinni, þar sem hann heyrði af því að framkvæmdin hafi ekki verið sem skyldi í forföllum hans árið áður.  Veðrið var mestan part með okkur í liði; þó tók að rigna hressilega á laugardagskvöldinu en hélst engu að síður þurrt þar til grillveislunni lauk. Eftir að borðhaldi lauk tók við söngur og gleði fram á nótt.

Sunnudagurinn fór að mestu í frágang, en þó tók fólk því rólega framan af degi; hluti af hópnum renndi fyrir fisk á meðan aðrir hófust strax handa við að pakka saman, með góðum spjallpásum inn á milli. Það stytti upp öðru hvoru sem dugði þó ekki til að allir næðu að pakka saman þurru, en vonandi hafa þó allir náð að þurrka búnaðinn þegar heim var komið, svo ekki þurfi að súpa seyðið af rigningunni að ári.  Viðlegubúnaður þeirra sem gistu á svæðinu var með ýmsu móti en frumlegasta gistiaðstaðan að þessu sinni var þó líklega fólksbifreið (Škoda Octavia), sem þótti víst reynast prýðilega sem svíta.

Eins og áður sagði var rennt fyrir fisk í Apavatni og var heldur meiri afli í ár en í fyrra, en þó er ólíklegt að það væri raunhæft að bæta stangveiði við sem keppni í útilegunni, nema þá sem stigakeppni þar sem þyngst myndu vega t.a.m. þættir eins og þolinmæði og fjöldi glataðra (eða jafnvel veiddra) spúna.

Við viljum þakka ættingjum og vinum sem tóku þátt í útilegunni kærlega fyrir samveruna.  Að lokum færum við sérstaklega hlýjar þakkir til Lionsklúbbsins Úu fyrir að taka þátt með okkur.  Samstarfið milli klúbbanna styrkir hefðina og eykur ánægju allra aldurshópa.

Vetrarstarfið fer nú á fullt með hefðbundnum og óhefðbundnum fundum og verkefnum klúbbsins. Það er markmið okkar að bæta verulega í upplýsingagjöf og sýnileika klúbbsins á þessu starfsári og ljúka þessu 60 ára afmælisári klúbbsins með stæl.

Deila frétt:

Related Posts